Þetta er minn fortíðargluggi

Ég stóð í fimm ára gömlum sporum, með fimm ára gamlar minningar í hausnum horfði ég inn um dyrnar og kvaddi. Ég stóðst reyndar ekki mátið að gægjast innum gluggann á leið minni út í fyrsta stjörnubjarta vetrarkvöldið. Allar stjörnurnar á himninum virtust reyna af öllum mætti að gægjast með mér en ég sagði bara hingað og ekki lengra, þetta er minn fortíðargluggi.

Þarna sá ég mig liggja við hliðina á þér, fullkomlega ómeðvitaða um okkar samfléttaða farveg starði ég í augun þín og þú í mín, Harold and Maude í bakgrunni, hálfétin pizza á borðinu, ég með símanúmerið þitt í vasanum og bókina sem þú gafst mér, þú horfðir á mig eins og ég mætti ekki fara, því ég var brothætt og gæti þess vegna splúndrast í þúsund trilljón glerbrot yfir gjörvalla Norðurmýrina og hjarta þitt. En ég kom aftur og í fimm ár kúrðum við saman í holu sem var hlý og lítil og við uxum saman eins og rætur, rændum stundum sólinni og hlóum og héldum okkur fast í hvort annað þegar myrkrið reyndi að hrifsa og grípa.

Ég stóð þarna kulin fyrir utan gluggann, með skúringamoppu í einni og skítuga tusku í hinni, þú reyktir þína síðustu sígarettu í "koníakforstofunni" og ég gat ekki hætt að gægjast. Einhver óljós söknuður greip mig heljartaki, það var eins og ég væri að kveðja gamlan vin sem væri á leiðinni til útlanda í óákveðinn tíma, þú veist að þið mynduð vera í sambandi en það yrði aldrei aftur eins.

Grár köttur sem átti það stundum til að kíkja í heimsókn inn um gluggana mjakaði sér nær mér í myrkrinu og gott ef hann var ekki glottandi á svipinn, en hann var reyndar hálf umkomulaus greyjið og stóð við hliðina á mér með spurn í augum og ég spurði hann hvort hann ætti eftir að sakna mín, en þá sá hann hvíta læðu uppí tré og hunsaði mig, enda mundi hann eftir "stóra harðfiskmálinu".

Eigum við ekki að drífa okkur heim? sagðir þú og ég horfði uppí himininn á blikkandi stjörnur sem vildu gægjast og bauð þeim að ganga í bæinn.


...hring eftir hring eins og fjöllin sem mig umvöfðu...

þá er ég nýkomin frá Ísafirði, var þar á vegum lhi á námskeiði sem stóð frá mánudegi til föstudags! Þetta var bara frábær ferð, við vorum um 20 manns, öll á fyrsta ári í tónlistardeildinni. Fengum eitt stykki gistiheimili undir okkur og gátum flippað eins og við vildum. Skemmtileg minning frá fyrsta kvöldinu þar sem allir drógu fram hljóðfærin sín og sátu í stofunni og spunnu saman. Það var svoldið skrýtið fyrst að geta ekki dregið fram hljóðfærið sitt, stillt það og byrjað að spila útí bláinn, röddin er svona aðeins öðruvísi hljóðfæri og ég fann það fljótlega að ég ætti bara að láta vaða með mín hljóð, fannst fyrst eins og það væri ekki að gera sig en svo bara hætti ég að hugsa og fór að leika mér með hljóðfærið mitt, kannski aðeins of mikið því ég er hálf raddlaus núna hehe.



Við þurftum að vakna snemma til að mæta á námskeiðið og kennararnir okkar, Sigrún og Paul, byrjuðu á því að hita okkur upp með allskyns rythma æfingum og klöppum og hljóðum. Síðan var planið að semja tónverk sem við síðan fluttum í lokin ásamt hópi af krökkum úr tónlistarskóla ísafjarðar. Þetta gekk nú svona upp og ofan þar sem þetta var asni fjörugur hópur og sumir vöktu lengur en aðrir að djamma og dansa, löggan á ísafirði fékk allavega að vinna aðeins fyrir kaupinu sínu því hún kíkti víst í heimsókn á hverju kvöldi! En þetta var nú samt allt í góðu, allir bara í fíling.

Það var alveg yndislegt að fara á æskuslóðirnar og hlaða batteríin,
ilmurinn úr gamla bakaríinu!

Björnsbúðin hennar ömmu brosti á móti mér og hvíslaði að mér gömlum minningum,

Ég fann bananalyktina góðu úr Björnsbúðinni á meðan ég horfði nostalgígjulega á fjöllin.
Ohh þessi fjöll!!

Og þegar ég söng á svölunum milli fjallana fyrir ömmu og bara fyrir ömmu þá fannst mér ég hafa lokað hringnum. Æskuhringnum.

Og Þegar ég sagði við afa hvað mér þætti vænt um hann og knúsaði hann jafnvel þótt hann gleymdi því jafnóðum hvað ég sagði þá fannst mér ég vera komin aftur á stað sem mun ávallt vera hluti af mér, ég heyri mig segja "mér þykir svo vænt um þig afi minn" aftur og aftur og aftur jafnvel þó hann gleymi því jafnóðum er ég búin að loka hringnum og nú mun þessi ást og orka snúast hring eftir hring eins og fjöllin sem mig umvöfðu.


við eina fjölina felld?

Nú er draumaíbúðin bókstaflega handan við hornið og skilnaðurinn við kjallaraíbúðina góðu óhjákvæmilegur.

En við hreinlega uxum bara í sitthvora áttina, ég þurfti mitt speis og skápapláss og þú þurftir einhvern sem kynni að meta þig meira!

Draumaíbúðin spurði mig hvort ég væri ekki við eina fjölina felld?

Ég svaraði; jú, fjárhagurinn leyfir hreinlega ekki tvær fjalir.

Eftir 5 ára stormasamt samaband í niðurgrafinni kjallaraíbúð í norðurmýrinni vendi ég mínu kvæði í kross og tekst á við himneskt risíbúðarsamband í Laugarnesinu.

 

 


Geðlyfja-dúett?

Jahérna hér! Mín barasta komin með moggablogg :)

Hér mun ég líklega láta dæluna ganga, hreinsa hugann og dömpa öllu ruglinu útí forarpitt internetsins bara af því bara.

 Ég er 27 ára gömul kerla sem elska að syngja og er að læra klassískan söng, var að byrja í Lhí núna í haust og fæ þar útrás fyrir óhljóðin ;)

Það er svo merkilegt með tónlist hvað hún getur breytt hugarástandi fólks, ég er þessi viðkvæma týpa sem tek allt inná mig og stundum er eins og þriðja heimstyrjöldin brjótist um í hausnum á mér en þegar ég syng þá hverfa heimstyrjaldir eins og dögg fyrir sólu og ekkert annað kemst að nema tónlistin sjálf. Enda í raun svoldið líkt hugleiðslu, að tæma hugann, er það ekki bara málið? Hvernig væri að gera líf okkar að eilífum söngleik? Við getum sungið allt sem við segjum, útí búð, í bankanum og í vinnunni. Allt voða skemmtilegur gjörningur svo framarlega sem við verðum ekki lögð inná geðdeild. Það má þá svo sem syngja þar líka. Gæti orðið svona drama söngleikur í anda Dancer In The Dark. Held það nú! Ohh ég er strax farin að sjá fyrir mér geðlyfja-dúettinn sunginn af Agli Ólafsyni og Ólavíu Hrönn.

....Held það sé kominn tími til að fara að sofa.....


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband