...hring eftir hring eins og fjöllin sem mig umvöfðu...

þá er ég nýkomin frá Ísafirði, var þar á vegum lhi á námskeiði sem stóð frá mánudegi til föstudags! Þetta var bara frábær ferð, við vorum um 20 manns, öll á fyrsta ári í tónlistardeildinni. Fengum eitt stykki gistiheimili undir okkur og gátum flippað eins og við vildum. Skemmtileg minning frá fyrsta kvöldinu þar sem allir drógu fram hljóðfærin sín og sátu í stofunni og spunnu saman. Það var svoldið skrýtið fyrst að geta ekki dregið fram hljóðfærið sitt, stillt það og byrjað að spila útí bláinn, röddin er svona aðeins öðruvísi hljóðfæri og ég fann það fljótlega að ég ætti bara að láta vaða með mín hljóð, fannst fyrst eins og það væri ekki að gera sig en svo bara hætti ég að hugsa og fór að leika mér með hljóðfærið mitt, kannski aðeins of mikið því ég er hálf raddlaus núna hehe.



Við þurftum að vakna snemma til að mæta á námskeiðið og kennararnir okkar, Sigrún og Paul, byrjuðu á því að hita okkur upp með allskyns rythma æfingum og klöppum og hljóðum. Síðan var planið að semja tónverk sem við síðan fluttum í lokin ásamt hópi af krökkum úr tónlistarskóla ísafjarðar. Þetta gekk nú svona upp og ofan þar sem þetta var asni fjörugur hópur og sumir vöktu lengur en aðrir að djamma og dansa, löggan á ísafirði fékk allavega að vinna aðeins fyrir kaupinu sínu því hún kíkti víst í heimsókn á hverju kvöldi! En þetta var nú samt allt í góðu, allir bara í fíling.

Það var alveg yndislegt að fara á æskuslóðirnar og hlaða batteríin,
ilmurinn úr gamla bakaríinu!

Björnsbúðin hennar ömmu brosti á móti mér og hvíslaði að mér gömlum minningum,

Ég fann bananalyktina góðu úr Björnsbúðinni á meðan ég horfði nostalgígjulega á fjöllin.
Ohh þessi fjöll!!

Og þegar ég söng á svölunum milli fjallana fyrir ömmu og bara fyrir ömmu þá fannst mér ég hafa lokað hringnum. Æskuhringnum.

Og Þegar ég sagði við afa hvað mér þætti vænt um hann og knúsaði hann jafnvel þótt hann gleymdi því jafnóðum hvað ég sagði þá fannst mér ég vera komin aftur á stað sem mun ávallt vera hluti af mér, ég heyri mig segja "mér þykir svo vænt um þig afi minn" aftur og aftur og aftur jafnvel þó hann gleymi því jafnóðum er ég búin að loka hringnum og nú mun þessi ást og orka snúast hring eftir hring eins og fjöllin sem mig umvöfðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband