Þetta er minn fortíðargluggi

Ég stóð í fimm ára gömlum sporum, með fimm ára gamlar minningar í hausnum horfði ég inn um dyrnar og kvaddi. Ég stóðst reyndar ekki mátið að gægjast innum gluggann á leið minni út í fyrsta stjörnubjarta vetrarkvöldið. Allar stjörnurnar á himninum virtust reyna af öllum mætti að gægjast með mér en ég sagði bara hingað og ekki lengra, þetta er minn fortíðargluggi.

Þarna sá ég mig liggja við hliðina á þér, fullkomlega ómeðvitaða um okkar samfléttaða farveg starði ég í augun þín og þú í mín, Harold and Maude í bakgrunni, hálfétin pizza á borðinu, ég með símanúmerið þitt í vasanum og bókina sem þú gafst mér, þú horfðir á mig eins og ég mætti ekki fara, því ég var brothætt og gæti þess vegna splúndrast í þúsund trilljón glerbrot yfir gjörvalla Norðurmýrina og hjarta þitt. En ég kom aftur og í fimm ár kúrðum við saman í holu sem var hlý og lítil og við uxum saman eins og rætur, rændum stundum sólinni og hlóum og héldum okkur fast í hvort annað þegar myrkrið reyndi að hrifsa og grípa.

Ég stóð þarna kulin fyrir utan gluggann, með skúringamoppu í einni og skítuga tusku í hinni, þú reyktir þína síðustu sígarettu í "koníakforstofunni" og ég gat ekki hætt að gægjast. Einhver óljós söknuður greip mig heljartaki, það var eins og ég væri að kveðja gamlan vin sem væri á leiðinni til útlanda í óákveðinn tíma, þú veist að þið mynduð vera í sambandi en það yrði aldrei aftur eins.

Grár köttur sem átti það stundum til að kíkja í heimsókn inn um gluggana mjakaði sér nær mér í myrkrinu og gott ef hann var ekki glottandi á svipinn, en hann var reyndar hálf umkomulaus greyjið og stóð við hliðina á mér með spurn í augum og ég spurði hann hvort hann ætti eftir að sakna mín, en þá sá hann hvíta læðu uppí tré og hunsaði mig, enda mundi hann eftir "stóra harðfiskmálinu".

Eigum við ekki að drífa okkur heim? sagðir þú og ég horfði uppí himininn á blikkandi stjörnur sem vildu gægjast og bauð þeim að ganga í bæinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Hér er góður penni á ferð. Takk fyrir þetta.

Jóna Á. Gísladóttir, 3.11.2007 kl. 09:49

2 Smámynd: Kristín Erla Kristjánsdóttir

Takk Jóna fyrir þetta fyrsta og góða komment :)

Kristín Erla Kristjánsdóttir, 3.11.2007 kl. 18:42

3 Smámynd: Heiða  Þórðar

Þú er æðislega góður penni Kristín.

Heiða Þórðar, 4.11.2007 kl. 21:19

4 identicon

Virkilega skemmtilegt að lesa þetta, Kristín - og takk fyrir að vilja vera bloggvinur! Bestu kveðjur að norðan

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 13:29

5 Smámynd: Kristín Erla Kristjánsdóttir

Takk Heiða  og sömuleiðis!

Doddi takk líka og bið að heilsa norður

Kristín Erla Kristjánsdóttir, 7.11.2007 kl. 00:09

6 Smámynd: www.zordis.com

Er ekki lífið dásamlegt!  Gott að kúra og lúrast

www.zordis.com, 7.11.2007 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband